Starfsgreining

Starfsgreining er kerfisbundið ferli þar sem upplýsingum er safnað um verkefni, skyldur og ábyrgð einstakra starfa eða starfahópa. Í starfsgreiningu er farið skipulega í gegnum hvernig störf eru unnin, hvaða verkþættir felast í störfum og í hvernig umhverfi starfið fer fram. Mikilvægt er að horfa eingöngu til starfsins til að byrja með óháð því hvaða starfsmaður gegnir því á þeim tíma sem greiningin fer fram. Starfsgreiningu má gera með hliðsjón af þeirri þekkingu, leikni, færni og öðrum eiginleikum (KSAO) sem starf krefst:

  • Þekking er fræðileg eða hagnýt og byggir á formlegri eða óformlegri menntun (e. knowledge, K).
  • Leikni er getan til að beita aðferðum, verklagi eða rökréttri hugsun á meðvitaðan máta (e. skills, S).
  • Færni er getan til að beita aðferðum eða verklagi á ómeðvitaðan máta. Færnin er lærð á ómeðvitaðan máta og getur jafnvel verið meðfædd (e. abilities, A).
  • Aðrir eiginleikar eru persónubundnir þættir svo sem félagsleg færni, jákvæðni, seigla, persónuleiki einstaklings, jafnaðargeð, áræðni og/eða sjálfstraust (e. other characteristics, O).

Oft getur verið erfitt að greina á milli leikni og færni og við starfsgreiningu og lýsingu á verkefnum, skyldum og ábyrgð einstakra starfa er rétt að miða við getu sem hægt er að tileinka sér á meðvitaðan máta.

Eftir að lykilverkefni og umfang þeirra hafa verið greind, fer fram greining á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem starfsmaður þarf að búa yfir til að leysa verkefni starfsins og er þá m.a. horft til þess hvort starfið krefjist tiltekinna formlegra prófa eða réttinda.

Flokkun skv. ÍSTARF95
Við starfsgreiningu er rétt að hafa starfaflokkunarkerfi Hagstofunnar, ÍSTARF95, til hliðsjónar enda er öllum stofnunum skylt að nota flokkunarkerfið. Kerfinu er ætlað til að staðla alla launatölfræði í landinu og rímar sú flokkun við starfslýsingar. Flokkunin getur nýst stofnunum við starfaflokkun við gerð stofnanasamninga.

Tenging við stofnanasamninga

  • Kortlagning starfa út frá verkefnum stofnunar.
  • Gefur yfirsýn yfir starfahópa innan stofnunar.
  • Styður flokkun og röðun starfa í stofnanasamningi.
  • Grunnur fyrir starfslýsingu.
  • Leiðbeinandi við mat á mannaflaþörf og gerð mannaflaspár.

Pin It on Pinterest

Share This