Spurt og svarað

Geta fleiri en eitt stéttarfélag gert saman stofnanasamning?

Ekkert er því til fyrirstöðu að stofnun semji saman eða samhliða við nokkur stéttarfélög. Þetta á sérstaklega vel við ef starfsmenn í nokkrum stéttarfélögum vinna sömu eða samkynja störf, þ.e. störf sem tilheyra sömu starfafjölskyldu eða starfaflokk. Þá eru sérstakir hagsmunir bæði stofnunar og starfsmanna að fólki sem gegnir þeim störfum sé ekki mismunað. Haft skal í huga að samráð þarf að hafa við viðkomandi stéttarfélög um hvort slík leið skuli farin.

Hvað er stofnanasamningur?

Stofnanasamningur er hluti af kjarasamningi og er meðal annars ætlað að tryggja þróun og stuðla að skilvirkara launakerfi sem tekur mið af þörfum og verkefnum stofnunar og starfsmanna hennar. Hann er sérstakur samningur milli stofnunar og viðkomandi stéttarfélaga um aðlögun tiltekinna þátta kjarasamningsins að þörfum stofnunar með hliðsjón af sérstöðu starfa og verkefna hverrar stofnunar. Einn veigamesti þáttur hins miðlæga kjarasamnings sem stofnun og viðkomandi stéttarfélagi er ætlað að útfæra er hvaða þættir/forsendur skuli ráða röðun starfa. Viðræður um stofnanasamning fara fram undir friðarskyldu.

Í stofnanasamningi skal semja um röðun starfa í launaflokka og meta persónu- og tímabundna þætti til röðunar í álagsþrep. Samningurinn hefur ekki önnur viðfangsefni nema þau séu sérstaklega tilgreind.

Meira um stofnanasamninga.

Hvert er markmið stofnanasamnings?

Að stuðla að auknum árangri í starfi stofnana til hagsbóta fyrir starfsmenn, stofnun og þá sem nýta sér þjónustu viðkomandi stofnunar. Markmiðið er einnig að efla samstarf starfsmanna og stjórnenda á vinnustað til að auka gæði opinberrar þjónustu, bæta nýtingu rekstrarfjármagns stofnunar og skapa þannig grundvöll fyrir aukinni hagræðingu og skilvirkara launakerfi.

Markmið stofnanasamninga er einnig að færa ákvörðun um launasetningu starfa nær starfsvettvangi þar sem hægt er að bregðast hraðar við breytingum sem eiga sér stað á störfum og skipulagi stofnana og stuðla að árangurstengingu launa í samræmi við markmið og stefnu stofnana.

Stefna stofnunar i ýmsum málum þarf að vera skýr þar sem skilgreint er í hverju árangur stofnunar felst, hvernig stofnun hyggst bæta skipulag, nýtingu fjármuna og auka árangur. Skýr tengsl milli almennrar stefnu stofnunar og mannauðsstefnu hennar þurfa að vera fyrir hendi.

Hver er munurinn á kjarasamningi og stofnanasamningi?

Kjarasamningur er samningur milli stéttarfélaga og ríkisins um kaup og kjör og er stofnanasamningur hluti af kjarasamningi. Í stofnanasamningi skal semja um grunnröðun starfa og hvaða þættir og/eða forsendur skuli ráða röðuninni. Þar skulu fyrst og fremst metin þau verkefni og skyldur sem í starfinu felast auk þeirrar færni (kunnátta/sérhæfing) sem þarf til að geta innt starfið af hendi. Miða skal við að um sé að ræða viðvarandi og stöðugt verksvið og eins að þar sé verið að meta þá þætti starfsins sem leiða af þeim verkefnum/viðfangsefnum sem stofnun ber að sinna. Þannig er stofnanasamningur sérstakur samningur milli stofnunar og viðkomandi stéttarfélaga um aðlögun tiltekinna þátta kjarasamnings að þörfum stofnunar og starfsmanna með hliðsjón af eðli starfsemi, skipulagi og/eða öðru því sem gefur stofnun sérstöðu.

Hvað gerir samstarfsnefnd?

Samstarfsnefnd er vettvangur samstarfs stofnunar og stéttarfélags og er skipuð þremur fulltrúum frá hvorum aðila, stéttarfélagi og stofnun. Hún hefur það hlutverk að fjalla um forsendur starfaflokkunar, röðun einstakra starfa í launaflokka og að koma á sáttum í ágreiningsmálum sem kunna að rísa út af stofnanasamningi.

Meira um samstarfsnefnd.

Hverjir skipa samstarfsnefnd?

Samstarfsnefnd er skipuð þremur fulltrúum frá hvorum aðila, stéttarfélagi og stofnun. Trúnaðarmaður getur verið fulltrúi í samstarfsnefnd eða henni til aðstoðar. Ákvæði um samstarfsnefndir og starfshætti þeirra er að finna í 11.kafla kjarasamnings.

Meira um samstarfsnefnd.

Hvað er ÍSTARF95?

ÍSTARF95 er starfaflokkunarkerfi Hagstofunnar, sem er ætlað til að staðla alla launatölfræði í landinu. Flokkunin getur nýst stofnunum við starfaflokkun þegar stofnanasamningar eru gerðir og rétt er að minna á að stofnunum er skylt að flokka störf í samræmi við flokkunarkerfi Hagstofunnar.

Má semja um yfirvinnu eða annars konar viðbótargreiðslur í stofnanasamningi?

Hugsanlegt samkomulag um fasta yfirvinnu eða annars konar viðbótargreiðslur á ekki heima í stofnanasamningi. Í stofnanasamningi má hins vegar semja um fyrirkomulag greiðslu vegna tímabundins álags eða tímabundinna verkefna.  Almennt séð ætti greiðsla vegna tímabundinna þátta ekki að vara lengur en í 6 mánuði án endurskoðunar.

Sjá meira um tímabundna þætti undir Kaflaskipting samnings.

Mannauðsstefna, hvað er það?

Í mannauðsstefnu koma fram upplýsingar um lykilverkefni stofnunar, gildi hennar og leiðarljós og markmið í mannauðs-/starfsmannamálum. Mannauðsstefna tekur til allra þátta starfsmannastjórnunar og þar lýsir stofnun hvernig hún hyggst standa m.a. að ráðningum, launamálum, móttöku nýliða og starfsþróun starfsmanna.

Sjá meira undir kaflanum Mannauðsviðmið.

Hvernig tengjast hvatar frammistöðumati stofnana?

Stjórnendur og starfsmenn þurfa að gera sér grein fyrir hvaða þættir í starfinu virka hvetjandi og hvernig hægt er að hlúa að þeim. Mat á frammistöðu starfsmanns getur í einhverju tilvikum verið launatengt en þarf ekki að vera það. Í stofnanasamningi er samið um tímabundna þætti sem geta m.a. tengst árangurs- eða frammistöðumati.

Góðir samningahættir í samstarfsnefndum

Mikilvægt er að viðhafa góða samningahætti sem byggja á jafnri stöðu aðila við gerð stofnanasamnings. Hér eru nokkur atriði sem vert er að huga að:

 • Sameiginleg markmið leidd fram.
 • Óþvinguð samskipti aðila.
 • Vinnuáætlun skýr og raunsæ.
 • Lausnamiðuð hugsun höfð að leiðarljósi.
 • Vel skilgreinar upplýsingar.
 • Hlutverk aðila utan nefndarinnar ákveðin, hver gerir hvað.
 • Leiðbeiningar nýttar.
Hvaða upplýsingar þurfa að liggja til grundvallar?

Nauðsynlegt er að ýmsar upplýsingar liggi til grundvallar þegar hafist er handa við gerð stofnanasamnings svo sem:

 • Upplýsingar um rekstrarstöðu stofnunar.
 • Greiningu á störfum og starfslýsingar.
 • Notkun á persónu- og tímabundnum þáttum.
 • Greinargerð um laun starfsmanna í viðkomandi stéttarfélagi, svo sem starfsheiti, grunnröðun, launaflokkar og þrep skv. gildandi stofnanasamningi flokkað eftir starfsheitum.

Eðlilegt má telja að stofnun leggi fram gögn vegna þessa og er rétt að áminna að um trúnaðargögn er að ræða sem fulltrúum í samstarfsnefnd ber að virða.

Á líka að endurskoða stofnunarsamning þótt stofnun fái ekki viðbótarfjármagn?

Já, endurskoðun stofnanasamnings er óháð fjárveitingum, samninginn skal endurskoða m.a. með hliðsjón af stöðu stofnunar.

Hvað er sérstök 30 þúsund króna umbun/viðbótarlaun?

Greiðsla sérstakrar umbunar og/eða viðbótarlauna umfram mánaðarlaun byggir á tvenns konar ákvæðum:

 1. Ákvæði kjarasamnings, þar sem kveðið er á um heimild til greiðslu sérstakrar umbuna umfram mánaðarlaun vegna sérstakra tímabundinna þátta sem ekki eru sambærilegir ákvæðum stofnanasamnings. Slík umbun greiðist aldrei lengur en áhrif þeirra þátta vara. Ákvörðun um greiðslu skal tekin af forstöðumanni og byggjast á skriflegum reglum sem hann hefur kynn starfsmönnum.
 2. Ákvæði 9.gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem stjórnendum er veitt heimild til að ákvarða einstökum starfsmönnum viðbótarlaun eftir sérhæfni og menntun sem nýtist í starfi svo og ábyrgðar og frammistöðu hvers og eins. Reglur um greiðslur viðbótarlauna voru settar árið 2007 af þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og skv. þeim skal forstöðumaður einnig setja nánari reglur um útfærslu á stofnun.

Í báðum tilvikum getur greiðslan aldrei numið hærri fjárhæð en 30.000 kr. á mánuði.

Pin It on Pinterest

Share This