Launastefna

Ýmsar áætlanir og stefnur eru nátengdar starfsmannastefnu stofnunar eða hluti hennar. Í þeim er kveðið nánar á um hvernig unnið verði í tilteknum málum sem varða starfsmenn svo sem um starfsþróun- og símenntun, laun starfsmanna, öryggi og vinnuvernd og samskipti á vinnustað, um jafnvægi vinnu og einkalífs, viðveru starfsmanna og starfsmannasamtöl.

Launastefnur stofnana geta m.a. kveðið á um að launaákvarðanir skuli vera gagnsæjar og málefnalegar og taki mið af þeim kröfum sem starf gerir til starfsmanns með tilliti til ábyrgðar, álags og sérhæfni sem og að laun taki mið af hæfni og frammistöðu starfsmanna og hvetji starfsmenn til að veita sem besta þjónustu. Stefnumótun á sviði launamála felur einnig í sér ákvarðanir um samsetningu launa, t.d. hvort byggt er á föstum launum eða notast að hluta til við breytileg laun. Dæmi um kerfi fyrir breytileg laun eru t.d. hvatakerfi, bónuskerfi, árangursgreiðslur tengdar verkefnum og frammistöðutenging launa.

Þær skilgreiningar starfa sem settar eru fram í stofnanasamningi ættu í raun að endurspegla launastefnu stofnunar þar sem röðun starfa tekur mið af þeim verkþáttum sem eru viðvarandi/stöðugir í viðkomandi starfi. Þannig á til dæmis ekki að taka tillit til tímabundins aukins umfangs tiltekins verkþáttar þegar röðun starfsins er ákveðin. Einnig verður að gæta samræmis varðandi röðun starfa milli mismunandi stéttarfélaga innan sömu stofnunar. Það þýðir að sama starfi verður að raða eins og út frá sambærilegum forsendum þó svo að um mismunandi kjarasamninga sé að ræða. Það þýðir aftur á móti ekki að það sé nauðsynlegt að starfsmenn fái nákvæmlega sömu krónutölu í laun þar sem launatöflur stéttarfélaga eru ekki þær sömu. Þess utan verður að gæta sérstaklega að jafnræði kynjanna enda er stofnunum er skylt að gera jafnréttisáætlanir og skulu konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og skulu kynin njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Jafnlaunastaðall

Jafnlaunastaðllinn ÍST 85:2012 er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi. Markmið staðalsins er að auðvelda atvinnurekendum að koma á og viðhalda launajafnrétti kynja á sínum vinnustað. Staðallinn nýtist öllum fyrirtækjum og stofnunum óháð stærð, starfsemi, hlutverki og kynjahlutfalli. Hann tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns. Frekari upplýsingar um Jafnlaunastaðalinn má finna á vef velferðarráðuneytisins.

Tenging við stofnanasamninga

  • Lýsir svigrúmi stofnunar til að mæta væntingum um laun.
  • Stuðlar að málefnalegri ákvarðanatöku um laun og launabreytingar.
  • Er forsenda hvatakerfis.

Pin It on Pinterest

Share This