Fræðsla

Í kjarasamningum 2015 urðu ríki og stéttarfélög sammála um að brýna nauðsyn bæri til að auka við þekkingu á gerð og inntaki stofnanasamninga. Með kjarasamningunum fylgir bókun um að aðilar standi sameiginlega að fræðsluátaki fyrir þá sem koma að gerð stofnanasamninga. Meðal annars vegna þess að form launataflna margra félaga innan BSRB og ASÍ munu taka breytingum þann 1. júní 2017 en einnig vegna þeirrar áherslu sem lögð er á heildstæða mannauðsstjórnun innan stofnana. Aðildarfélög BHM, auk framhaldsskólakennara, hjúkrunarfræðinga og fleiri hafa einnig valið að taka þátt í fræðsluátakinu þótt bókanir þeirra séu að einhverju leyti með öðrum hætti.

Í apríl 2016 var settur á laggirnar starfshópur skipaður fulltrúum stéttarfélaga og bandalaga, fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins auk fulltrúa Félags forstöðumanna ríkisins til að vinna að undirbúningi átaksins.

Fræðsluátak 2016-2017

Fræðsluátakinu er ætlað að auka þekkingu á stofnanasamningum og leiða til betri vinnubragða við gerð og framkvæmd stofnanasamninga. Góður stofnanasamningur og virk framkvæmd hans endurspeglar áherslur stofnunar og styður við stefnu hennar og markmið og er því mikilvægur hluti af heilstæðri mannauðsstefnu stofnunar.

Haldin voru 26 námskeið í Reykjavík, Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum þar sem fjallað var annars vegar um hugmyndafræði mannauðsstjórnunar og stofnanasamninga og annaðist Sverrir Hjálmarson hjá Vexti ráðgjöf þá fræðslu. Hér má sjá glærur Sverris. Hins vegar var svo fjallað um gerð stofnanasamninga sem slíka í ljósi núgildandi kjarasamninga. Sá hluti var í höndum Guðmundar H. Guðmundssonar á Kjara- og mannauðssýslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hér má sjá glærur Guðmundar.

 

Mannauðsviðmið

Aðferðir mannauðsstjórnunar eru kjarninn í starfsmannastefnu ríkisins. Til að stofnanasamningur sé virkur og endurspegli þarfir stofnunar þurfa ýmsir þættir mannauðsstjórnunar að vera til staðar og notaðir á virkan máta í daglegri stjórnun stofnunar. Mikilvægt er að stofnanir tileinki sér aðferðafræði mannauðsstjórnunar og flétti hana saman við framkvæmd stofnanasamninga.

Pin It on Pinterest

Share This