Stofnanasamningar

Stofnanasamningur er sérstakur samningur milli stofnunar og viðkomandi stéttarfélags um aðlögun tiltekinna þátta hins miðlæga kjarasamnings að þörfum stofnunar með hliðsjón af sérstöðu starfa og verkefna hverrar stofnunar sbr. 11. kafla kjarasamninga. Einn veigamesti þáttur hins miðlæga kjarasamnings sem stofnun og viðkomandi stéttarfélagi er ætlað að útfæra er hvaða þættir/forsendur skuli ráða röðun starfa. Þar að auki er heimilt að semja um aðra eða nánari útfærslu á vinnutímakafla hins miðlæga hluta hvers kjarasamnings og nokkur önnur atriði.

Markmið stofnanasamninga eru:

  • Að styrkja starfsemi viðkomandi stofnunar þegar til lengri tíma er litið með því að færa í hendur stofnunar og stéttarfélags f.h. starfsmanna hennar útfærslu tiltekinna þátta kjarasamningsins og skapa þannig forsendur fyrir betri starfsskilyrðum starfsmanna.
  • Að færa ákvörðun um launasetningu starfa nær starfsvettvangi þar sem hægt er að bregðast hraðar við breytingum sem eiga sér stað á störfum og skipulagi stofnana.
  • Að auka gæði þjónustunnar með því að efla samstarf starfsmanna og stjórnenda á vinnustað. Samstarfinu er ætlað að bæta rekstrarskipulag stofnunar, bæta nýtingu rekstrarfjármagns og skapa grundvöll fyrir aukinni hagræðingu og skilvirkara launakerfi og þannig gefa starfsmönnum tækifæri til að þróast og bæta sig í starfi og þar með auka möguleika þeirra á bættum kjörum.

Hvað er samið um í stofnanasamningi?

Í stofnanasamningi skal semja um grunnröðun starfa og hvaða þættir og/eða forsendur skuli ráða röðun þeirra. Við ákvörðun á röðun starfa í launaflokka skulu fyrst og fremst metin þau verkefni og skyldur sem í starfinu felast auk þeirrar færni (kunnáttustig/sérhæfing) sem þarf til að geta innt starfið af hendi. Við röðun starfa er m.a. hægt að taka mið af skipuriti stofnunar eða öðru formlegu starfsskipulagi og umfangi verksviðs og verkefna. Miðað er við að um sé að ræða viðvarandi og stöðug verkefni og verksvið.

Í stofnanasamningi er samið um persónubundna þætti sem gera starfsmenn hæfari en ella til að sinna viðkomandi starfi. Þættir sem geta komið til álita eru t.d. starfsreynsla, formleg menntun sem lokið er með viðurkenndum prófgráðum og/eða símenntun sem kemur að gagni í starfi, sjálfstæði í starfi, frumkvæði eða góður árangur í starfi.

Þá er einnig samið um tímabundna þætti sem geta t.d. tengst árangurs- eða frammistöðumati eða tengst auknu umfangi eða ábyrgð á tímabundnum verkefnum. Í 11. kafla miðlægs kjarasamnings getur verið ítarlegri upptalning á þeim þáttum sem samið er um í stofnanasamningi.

Samningurinn á að byggja á starfsmanna- og launastefnu stofnunar

Stofnanasamningur er hluti af miðlægum kjarasamningi og á að byggjast á starfsmanna- og launastefnu viðkomandi stofnunar. Hann á að stuðla að skilvirku launakerfi sem tekur mið af þörfum og verkefnum stofnunar og sjá til þess að framkvæmd, bæði starfsmannastefnunnar og launakerfisins, raski ekki þeim heildarmarkmiðum sem fjárlög setja stofnuninni hverju sinni.

Áríðandi er því að hver stofnun hafi skýra mynd af því hvers konar menntun, reynsla og hæfni starfsmanna er nauðsynleg við stofnunina og ekki síður þarf stofnunin að setja sér launastefnu og framfylgja henni. Þá þurfa forráðamenn stofnunar að leggja niður fyrir sér hvaða möguleikar eru fyrir hendi í þeim kjarasamningum sem starfsmenn stofnunarinnar taka laun eftir og ekki síður hvaða fjármunir eru til ráðstöfunar til launagreiðslna.

Tenging við stofnanasamninga

  • Kortlagning starfa út frá verkefnum stofnunar.
  • Yfirsýn yfir starfahópa innan stofnunar.
  • Flokkun og röðun starfa í stofnanasamningi.

Pin It on Pinterest

Share This