Stefna og hlutverk stofnunar

Mótun stefnu er ferli þar sem stofnun leitast við að skilgreina tilgang starfseminnar, sýn stjórnenda, markmið og árangur sem stefnt er að og hvaða leiðir verði farnar til að ná þeim markmiðum. Góð stefna tengir saman lögbundið hlutverk stofnunar, innra skipulag og kröfur ytra umhverfis og segir til um hvernig stofnun ætlar að ná fram markmiðum sínum á sem hagkvæmastan hátt.

Skýr sýn stjórnenda um tilgang og markmið stefnu er forsenda árangurs. Áætlun um aðgerðir, viðmið um árangur og mælingar á framgangi styðja við innleiðingu og framkvæmd stefnunnar. Mótun stefnu ríkisstofnana skal gera með hliðsjón af þeim lögum og reglugerðum sem gilda um starfsemina.

Sjá almennt um stefnumótun í Handbók um opinbera stefnumótun og áætlanagerð.

Starfsmannastefna

Stofnanir hafa lagaskyldu til að gera jafnréttisáætlanir en er annars ekki skylt að setja fram sérstaka starfsmannastefnu. Nútímamannauðsstjórnun og stjórnsýslustefna ríkisins, sem miðast við að hver stofnun setji sér þjónustu- og rekstrarmarkmið, gerir þó hverri stofnun nauðsynlegt að móta sér eigin starfsmannastefnu sem sé vel kynnt og skýr. Ákvæði kjarasamninga gera framsetningu slíkrar stefnu einnig óumflýjanlega.

Miðlæg starfsmannastefna ríkisins birtist í hinum ýmsu lögum, sem sett hafa verið um málefni starfsmanna ríkisins, svo sem lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kjarasamningar innihalda einnig mörg ákvæði sem eru hluti miðlægrar starfsmannastefnu.

Við gerð starfsmannastefnu ríkisstofnana þarf að huga að lögbundnu hlutverki stofnana og þeim lögum, reglugerðum og kjarasamingum sem eiga við hverju sinni.

Pin It on Pinterest

Share This