Starfsþróunaráætlun

Með starfsþróun er átt við samfellt ferli sem miðar að því að auka og efla færni og þekkingu starfsmanns. Starfsþróunaráætlanir taka mið af starfsemi og markmiðum stofnunar og við mótun þeirra er stuðst við áherslur í starfi stofnunar, niðurstöður starfs- og hæfnigreiningar og umræðu í starfsmannasamtali.

Ábyrgðin hvílir bæði á vinnuveitanda og starfsmanni að því leyti að vinnuveitanda ber að skapa umgjörð og tækifæri til starfsþróunar en starfsmaðurinn þarf að vera meðvitaður um eigin styrkleika og veikleika og gera sér raunhæfa áætlun til framtíðar. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að aukinni starfsánægju, hefur áhrif á árangur í starfi og minnkar líkur á brotthvarfi starfsmanns úr starfi.

Í starfsþróunaráætlun stofnunar felst greining á hlutverki, markmiðum og meginverkefnum jafnframt fer fram þarfagreining með tilliti til fræðsluþarfar innan stofnunar. Grunnurinn að markvissri símenntun starfsmanna er að greina fyrst þarfir stofnunarinnar, þarfir starfsins og þarfir starfsmannsins. Í því samhengi er nauðsynlegt að spyrja sig:

  • Hvert stefnir stofnunin og hvaða breytingum má búast við í starfsemi hennar?
  • Hvaða hæfni krefst starfið?
  • Hvaða hæfni býr starfsmaðurinn yfir?
  • Hvað vantar upp á og hvaða leiðir á að fara til að bæta úr?
  • Hvernig er best að forgangsraða?
  • Því næst er sett fram tímasett aðgerðaráætlun, starfsþróunaráætlun, þar sem tilgreint er með hvaða hætti stofnun ætlar sér að koma markmiðum um starfsþróun til framkvæmda. Tilgreina þarf ábyrgðaraðila skilgreindra aðgerða og hvernig staðið skuli að kynningu á áherslum í starfsþróunaráætlun stofnunar. Að lokum þarf að koma fram hvernig meta skal árangur af starfsþróunaráætluninni og hvenær hún skuli endurskoðuð. Líkt og aðrar áætlanir þarf að endurskoða starfsþróunaráætlun stofnunar reglulega. Taka þarf mið af þörfum stofnunar hverju sinni en jafnframt líta fram á við og bregðast við fyrirsjáanlegum breytingum í starfsumhverfinu. Mælst er til að starfsþróunaráætlun stofnunar sé endurskoðuð á eins til tveggja ára fresti samhliða annarri áætlanagerð og endurskoðun.

Stjórnendur bera ábyrgð á áætlanagerð sem taka til starfsþróunar og símenntunar starfsmanna, starfsmenn bera einnig ábyrgð gagnvart eigin starfi og eigin starfsþróun. Starfsþróunaráætlanir starfsfólks taka mið af áherslum og markmiðum starfsþróunaráætlunar stofnunar og eru afurð starfsmannasamtals.

Dæmi um starfsþróunaráætlun.

Tenging við stofnanasamninga

  • Fylgja eftir markmiðum um virka starfs- og hæfniþróun.
  • Tenging við hvatakerfi stofnunar.

Pin It on Pinterest

Share This