Markmið og forsaga

Ríkið setti sér nýja stefnu um ríkisreksturinn árið 1995. Þar á meðal var starfsmannastefna, sem birtist einnig í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem sett voru árið 1996. Í hinni nýju stefnu var dregið úr miðlægri stjórnun starfsmannamála og dreifstýring höfð að leiðarljósi. Aðferðafræði mannauðsstjórnunar eru kjarninn í starfsmannastefnu ríkisins sem þarna varð til og í tengslum við þessar breytingar var lögð fram hugmynd að aukinni valddreifingu í launakerfum og kjarasamningum ríkisins. Í kjölfar þess var með kjarasamningum 1997 samið um dreifstýrða launasetningu með áherslu á sérstöðu stofnana og einstaklinga. Samhliða þessum breytingum er fjármögnun stofnana breytt í fjárlögum og gerð almennari, en þetta gerði þeim kleift að ráða áherslum sínum frekar en áður var og þar með að tengja launasetningu starfsmanna við markmið og áherslur á hverjum stað.

Almennt um tilurð stofnanasamninga

Á árunum 1992 – 2002 breyttist rekstrarumhverfi ríkisstofnana verulega. Má þar nefna sem dæmi upptöku rammafjárlagagerðar, heimild til flutnings fjárheimilda og gjalda milli ára og flutning launaafgreiðslu og launaákvarðana frá fjármálaráðuneyti til stofnana. Þá hugmyndafræði, sem breytingar þessar byggja á, má rekja til ársins 1993 þegar mótuð var heildstæð stefna um þróun og skipulag ríkisrekstrarins á vegum fjármálaráðuneytis og með samþykkt ríkisstjórnar. Kjarni þeirrar stefnu er að dreifa valdi, auka ábyrgð og flytja ákvarðanir sem næst vettvangi og ná með því hagkvæmari rekstri og betri þjónustu.

Starfsmanna- og launamál ríkisins einkenndust um of af miðstýringu og þóttu kjarasamningar gefa takmarkað svigrúm til að launa góða starfsmenn og keppa um vinnuafl. Ákvörðun um röðun, bæði starfa og einstakra starfsmanna, í launaflokka var alfarið í höndum samningsaðila og lítill sem enginn möguleiki til aðlögunar hjá hverri stofnun fyrir sig. Launabreytingar voru mjög sjálfvirkar og byggðust fyrst og fremst á starfsaldri, nánast engir stað- eða einstaklingsbundnir aðlögunarmöguleikar voru fyrir hendi og launahlutföll milli hópa voru fastskorðuð.

Ríkið setti sér nýja stefnu um ríkisreksturinn árið 1995. Þar á meðal var starfsmannastefna, sem m.a. birtist í lögum sem sett voru ári síðar, lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Markmið breytinganna voru m.a. að draga úr miðlægri stjórnun starfsmannamála, auka valddreifingu í launakerfum og kjarasamningum ríkisins og hafa aðferðafræði mannauðsstjórnunar að leiðarljósi. Í kjölfar þess var með kjarasamningum 1997 samið um dreifstýrða launasetningu með áherslu á sérstöðu stofnana og einstaklinga. Það náðist samkomulag við nánast öll stéttarfélög starfsmanna ríkisins um útfærslu þessara markmiða í þeim kjarasamningum sem gerðir voru. Eftirfarandi forsendur voru settar fram sem grundvöllur þessarar kerfisbreytingar:

  • Að auka sveigjanleika launakerfisins og draga úr miðstýringu í launaákvörðunum.
  • Að koma á skilvirkara launakerfi sem tekur mið af þörfum og verkefnum stofnana og starfsmanna.
  • Að auka hlut dagvinnulauna, m.a. með því að fækka starfsaldursþrepum og minnka vægi sjálfvirkra tilfærslna. Jafnframt að opna fyrir þann möguleika að breyta samsetningu heildarlauna þannig að dregið sé úr yfirvinnu og vægi dagvinnulauna aukið án þess að það dragi úr vinnuskilum eða framleiðni stofnunar.

Eins voru samningsaðilar sammála um að útfæra þetta með þeim hætti að fela hverri stofnun fyrir sig að ákveða, með samkomulagi við viðkomandi stéttarfélag, hvaða þættir skyldu lagðir til grundvallar við mat á störfum á stofnun. Við það mat átti fyrst og fremst að hafa hliðsjón af sérstöðu hverrar stofnunar, einkum með tilliti til eðlis starfseminnar og skipulags hennar.

Gert var sérstakt samkomulag um það með hvaða hætti standa ætti að yfirfærslu úr gamla starfsheitaröðunarfyrirkomulaginu yfir í hið nýja launakerfi og hvaða viðbótarforsendur, umfram þær sem var að finna í skilgreiningum með hverjum ramma fyrir sig, skyldi hafa til hliðsjónar við röðun starfa. Þeir samningar, sem urðu til vegna þessarar yfirfærslu, gengu undir nafninu aðlögunarsamningar. Við endurnýjun kjarasamninga árið 2001 var svo samið um nýjan kafla (almennt 11. kafli kjarasamninga) og er þar heiti aðlögunarsamnings breytt í stofnanasamning.

Pin It on Pinterest

Share This